news

Veikindi, innivera og lyfjagjöf í Vesturbergi

23. 10. 2018

Veikindi, innivera og lyfjagjöf í Vesturbergi

Eftirfarandi eru viðmið við veikindum, inniveru og lyfjagjöf barna í Vesturbergi. Að sjálfsögðu er hvert tilfelli metið og vegið. Við bendum á að hér þarf að taka tillit til allra barna í leikskólanum og ekki síst að reyna að koma í veg fyrir smit barnanna á milli. Einnig skal benda á að slappleiki getur oft verið mjög erfiður –það að vera í yfir 100 manna samfélagi í kannski yfir átta klukkustundir með öllu því áreiti sem þar fer fram, getur verið ótrúlega erfitt.

Veikindi

Í Vesturbergi er ekki hægt að taka á móti veikum börnum, ef börn eru veik þá þurfa þau að vera heima og jafna sig. Barn sem fær hita þarf að vera heima í 1-2 sólarhringa áður en það kemur í leikskólann. Fái barn smitsjúkdóm þarf það að dvelja heima þar til smithætta líður hjá, smithættur og meðgöngutími smitsjúkdóma er mismunandi og hægt er að leita ráða hjá barnalæknum eða leikskóla.

Innivera

Best er að barnið hafi náð fullum bata áður en það kemur í leikskólann svo það geti tekið fullan þátt í starfinu. Athugið að halda barni inni vegna þess að það er alveg að verða veikt er engin trygging gegn veikindum og oft er barnið að smita önnur börn.

Útivera

Útivera er mikilvægur þáttur í starfi leikskólans og hefur uppeldislegt gildi og felur í sér nám. Daglega fara börnin í Vesturbergi á útisvæði til að leika. Á útisvæði gefst færi á góðri grófhreyfingu sem erfiðara er að stunda innandyra. Hljóðvist er önnur og rýmið svo miklu meira, á útisvæði er hægt að róla, hjóla, renna, hlaupa og allt sem manni dettur í hug.

Svo er auðvitað það allra besta: að anda að sér fersku lofti og leika utandyra eykur matarlyst og flýtir oft fyrir bata. Að sjálfsögðu er ætíð tekið mið af veðri.

Lyfjagjöf í leikskóla

Allra best er að börnin taki lyf heima og helst viljum við ekki að lyfin komi í leikskólann. Ef um sérstök tilfelli er að ræða þarf að ræða við deildarstjóra sem gefur lyfin í samkvæmt fyrirmælum læknis.

© 2016 - 2020 Karellen