Karellen

Markmið náms í leikskólanum

Allar rannsóknir á leiknum sem gerðar hafa verið undanfarin ár, sýna svo ekki verður um villst að börn verða að fá að leika sér. Það er í gegnum leikinn sem börnin læra, þroska og þjálfa hæfileika sína.

Þegar námsstefna Vesturbergs var ákveðin, var virðing fyrir frjálsum sjálfsprottnum leik barna lögð til grundvallar öllu uppeldisstarfi leikskólans. Allt skipulag sem kæmi í veg fyrir að börnin næðu að lifa sig inn í leikinn skyldi vera í lágmarki. Auk þess var lagt upp með trú á barnið sem getumikinn einstakling, færan um að taka sjálfstæðar ákvarðanir og því ákveðið að börnin skyldu sjálf fá að ráða sem mestu um hvernig þau nýttu tíma sinn í leikskólanum. Þá var einnig höfð að leiðarljósi þörf barnanna fyrir ást, öryggi, hlýju og viðurkenningu hins fullorðna. Leikskólinn skyldi því vera öruggur, hlýlegur, skemmtilegur og örvandi vinnustaður sem vekti hjá börnunum gleði, forvitni og frumkvæði auk þess að efla sjálfstæði þeirra og jákvæða sjálfsmynd.


Sjálfsákvörðunarréttur

Í Vesturbergi er sjálfsákvörðunarréttur barna virtur. Við lítum svo á að sjálfsákvörðun felist í viljanum til að vera sjálfstæður, að geta staðið óháður öðrum börnum, umhverfi sínu og þeim fullorðnu.

Við teljum að sjálfsákvörðun sé þróun sem stendur allt lífið. Hér í Vesturbergi viljum við ýta undir sjálfstæði barnanna, bæta sjálfsmynd þeirra og leyfa þeim að taka ákvarðanir um hvað þau vilja gera í leikskólanum. Þó að börnin ráði hvað þau gera í leikskólanum ætlumst við til að þau fari eftir reglum skólans til dæmis í matar- og kaffitímum.


Svæðaskipulagið

Vesturberg er opinn leikskóli þar sem rými barnanna er sameiginlegt. Leikskólanum hefur verið skipt upp í svæði frá upphafi. Svæðin hafa hvert um sig ákveðin uppeldisleg markmið. Börnin fara frjálst um húsið en starfsfólkið á fasta viðveru á svæðunum viku í senn. Starfsfólk má ekki yfirgefa svæðið sitt nema að fá annan starfsmann til að leysa sig af. Starfsfólkið leggur áherslu á að vera til staðar fyrir börnin, lætur þau hafa sem mest frumkvæði að gjörðum sínum, veitir hjálp sé um hana beðið en áherslan er á að hjálpa börnunum til sjálfshjálpar. Starfsfólki ber að vera góð fyrirmynd á svæðinu.
Markmið svæðaskipulagsins er m.a.:

  • Að sjá til þess að börnin fái frið í leik.
  • Að efla frumkvæði, sköpunarþörf og ímyndunarafl barnanna.
  • Að skapa skilyrði til að börnin geti ræktað vináttu við önnur börn og við starfsfólk leikskólans.
  • Að hvetja börnin til að vinna saman.
  • Að auka einbeitingu barnanna með því að brjóta ekki í sífellu upp leik þeirra og starf með skipulagi sem þau fá engu ráðið um.

Að byrja í leikskóla - aðlögun

Það reynist börnunum oft erfitt að byrja í leikskóla og þau bregðast ólíkt við þeirri nýju reynslu sem þau upplifa þegar þau hefja skólagönguna. Foreldrar eru líka misvel undirbúnir. Oft er þetta fyrsti aðskilnaður barnsins við heimilið og fjölskylduna og því mikilvægt að vel takist til og öllum líði vel á meðan á aðlöguninni stendur.

Þegar barn byrjar í Vesturbergi, eru foreldrar boðaðir í viðtal við leikskólastjóra. Þar er gengið frá skriflegum dvalarsamningi, foreldrar hitta starfsfólkið, skoða leikskólann og fá upplýsingar um starfið. Næst koma svo foreldrar (foreldri) og barn saman og skoða. Þá tekur kennari barnsins á móti þeim og sinnir barninu sérstaklega. Þessi fyrsta heimsókn barnsins varir yfirleitt í um það bil klukkustund. Eftir það smá lengist dvölin og hvert barn fær aðlögunaráætlun við sitt hæfi. Oftast tekur það börnin um það bil viku að aðlagast leikskólanum en stundum þurfa þau lengri tíma og stundum styttri. Við hvetjum foreldra til að njóta þessara daga og taka lífinu með ró meðan á aðlögun stendur. Það er mjög gott að nota tímann til að kynnast starfsfólkinu og hinum börnunum og verða þannig betur í stakk búin til að ræða við barnið um leikskólann og allt sem þar gerist þegar heim er komið.


Að koma og fara

Enginn fastur mætingatími er í Vesturbergi. Við teljum klukkuna stjórna athöfnum okkar í of ríkum mæli og þjóðfélagið einkennast um of af flýti og stressi sem kemur niður á börnunum. Til að vega upp á móti því, viljum við gera foreldrum kleift, ef þeir hafa rýmri tíma einhvern morguninn, að njóta samvista við barnið sitt í rólegheitum og koma svo í leikskólann. Okkur er ljóst að reglufesta í mætingum eykur öryggiskennd barnsins gagnvart leikskólanum. Sum börn þurfa þessa festu, önnur síður. Við metum það sameiginlega þegar barnið er byrjað.
Það er nauðsynlegt að foreldrar láti starfsfólk vita þegar þeir koma með eða sækja barnið. Það er líka mikilvægt og eykur öryggiskennd barnsins að foreldrar gefi sér góðan tíma þegar þeir koma með og sækja barnið.


Bók eða bangsi

Börnin mega koma með bók eða bangsa að heiman, þó einungis einn hlut í einu. Leikskólinn tekur enga ábyrgð á bók eða bangsa barnanna. Það er líka í góðu lagi að koma í búning alla daga ef maður í skapi til þess. Þetta köllum við BBB regluna.

Fatnaður

Klæðið börnin eftir veðri. Hafið klæðnað barnanna þægilegan svo að þeim líði vel í fötunum og til þess að þau eigi auðvelt með að hjálpa sér sjálf við salernisferðir o.fl. Nauðsynlegt er að hafa alltaf aukaföt í boxinu sem grípa má til ef óhöpp eiga sér stað. Mikilvægt er að fötin séu merkt. Munið að leikskólinn er vinnustaður barnanna ykkar og því best að þau komi í fötum sem sjá má á, t.d. eftir ýmsa föndurvinnu eða ánægjulega stund á útisvæði.


Viðtalstímar

Viðtöl við leikskólastjóra og aðstoðarleikskólastjóra eru eftir samkomulagi hverju sinni. Deildarstjórar eru alltaf til taks og eftir samkomulagi í hvert skipti.


Óhöpp, slys og veikindi

Börn í leikskólum Reykjanesbæjar eru slysatryggð á meðan þau dvelja í leikskólanum. Ef barn veikist eða verður fyrir slysi, höfum við strax samband við foreldra. Náist ekki í þá eða ef um alvarlegt slys er að ræða, er farið með barnið beint á slysadeild.


Fjarvistir barna

Vinsamlegast látið starfsfólk leikskólans vita ef barn er veikt eða í fríi, í síma 420-3115 eða sendið póst á netfangið vesturberg@vesturberg.is eða skráið á Karellen.is


Breytt heimilisfang/símanúmer

Mikilvægt er að tilkynna um breytta hagi barnsins eins og nýtt heimilisfang og símanúmer. Einnig er nauðsynlegt að við séum alltaf með rétt símanúmer á vinnustað foreldra. ef að breytingar á heimilisfangi eða símanúmeri verða.


Skipulagsdagar

Skipulagsdagar eru 6 á ári. Þá er leikskólinn lokaður. Skipulagsdagarnir eru auglýstir með mánaðarfyrirvara. Skipulagsdagana notar starfsfólkið m.a. til að fá til sín fyrirlesara um ýmis efni tengd starfinu, skipuleggja og endurskipuleggja innra starf leikskólans, koma nýjum hugmyndum til starfsfólks og til annarrar faglegrar samvinnu.


Sumarleyfislokun

Leikskólar Reykjanesbæjar eru lokaðir í fimm vikur á ári, eða 24 vinnudaga og eru á tímabilinu júní til ágúst.


Dvalargjöld

Dvalargjöld eru greidd fyrirfram fyrir einn mánuð í senn og geta foreldrar valið um að greiða þau með greiðslukorti eða í gegnum greiðsluþjónustu bankanna. Dvalargjöldin eru reiknuð í heilum og hálfum klukkustundum. Ekki er hægt að vista barn skemur en fjóra tíma á dag.


Skuldi foreldrar þrjá mánuði missir barnið leikskólarýmið og skuldin er sett í innheimtu hjá lögfræðingi.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er einn mánuður og miðast við 1. hvers mánaðar. Sama gildir um breytingu á vistunartíma.

© 2016 - 2023 Karellen